top of page
Search

Litlu sigrarnir maður...


Fyrir nokkrum dögum síðan kom húsbóndinn til mín afar ánægður með sig og sagði „ég gerði við skúffuna inni á baði“!

Ég sá á breiða brosinu að hann var stoltur og það var augljóst að hann fann fyrir létti eftir að hafa lokið við þetta litla verkefni.

Verkefni sem var búið að hanga yfir honum í langan tíma. Verkefni sem tók innan við 10 mínútur í framkvæmd!

Þrátt fyrir stærðargráðu verkefnisins var gleðin sönn því það að búa til tíma og laga skúffuna var sigur út af fyrir sig.


Ég er nokkuð viss um að við könnumst öll við þessa tilfinningu, bæði að hafa lokið við eitthvað sem hefur hangið yfir okkur í góðan tíma. Jafnframt þeirri tilfinningu að ganga fram hjá þessari „skúffu“ á hverjum degi pirruð yfir því að fresta hlutunum og koma okkur ekki að verki.


Léttir húsbóndans var það mikill að hann rifjaði upp lista sem ég gerði þegar ég var í markþjálfunarnáminu sem kallaðist „Tolerance list“ og var partur af verkefnavinnu nemendanna í að setja sér lítil viðráðanleg markmið, tímasetja þau og framkvæma.

Hann var svo upprifinn eftir þessar framkvæmdir að hann lagði til að við hjónin skyldum græja einn slíkan lista fyrir heimilið og halda áfram að vinna þessi litlu verkefni sem setið hafa á hakanum.


Listinn er einfaldur. Skráðu niður 10-15 atriði á blað sem fela í sér verkefni heima fyrir, í vinnunni eða í samskiptum. Verkefni eða athafnir sem þú hefur ýtt á undan þér en vilt klára.


Þegar þú hefur skjalfest þessi atriði er næst á dagskrá að forgangsraða þeim út frá hve mikla orku, tíma, eða peninga þú græðir með því að klára þetta tiltekna verkefni.


Listinn getur innihladið einföldustu atriði líkt og:

- tiltekt í fataskáp

- hringja í vin eða ættingja

- kaupa nýja peru

- panta tannlæknatíma

- fara með dósir í endurvinnsluna


Eða önnur atriði sem taka stuttan tíma en eiga það til að reyna meira á s.s erfitt samtal við yfirmann eða maka.


Að segjast ætla að gera það er ekki nóg, það þarf að setja dagsetningu á blaðið og tíma á verkefnið.

Ég fór strax að leiða hugann að því hvaða 10-15 atriði ég myndi setja á listann minn og var ekki lengi að því að fylla hverja línu með markmiðum og verkefnum sem myndu taka mig innan við 30 mínútur að klára frá upphafi til enda.


Ég hef td. komið mér upp afar góðum vana að útbúa hollt nesti til þess að taka með í vinnuna. En á hverjum degi hef ég þurft að sækja mér nestisbox í skáp sem hefur verið í þvílíkri óreiðu. Ég hef þurft að vanda mig við að loka skáphurðinni til þess að varna því að lokin flæði ekki út á gólf.

Ótrúlegt en satt þá var þetta verkefni afar fljótlegt í vinnslu. En eins merkilegt og það kann að hljóma veitti það mér mikinn andlegan létti að hreinsa til í skápnum og í stað þess að taka frá mér orku fæ ég daglega áminningu um það að ég hafi tekið til hendinni og klárað þetta í eitt skipti fyrir öll (að því gefnu að heimilisfólkið gangi vel um).


Það að klára eitt verkefni veitir manni drifkraft til þess að halda áfram. Hver hefði trúað því að laga bilaða skúffu eða taka til í skápum geti veitt manni aukið sjálfstraust og hvatningu til þess að takast á við fleiri verkefni, stór eða smá.


Það er frábært að setja sér háleit og stór langtímamarkmið en þessir litlu daglegu sigrar eru ekki síður mikilvægir þegar kemur að líðan okkar. Sama hver markmið okkar eru þá erum við öll að eiga við sama grunninn, halda heimili, sinna vinnu eða námi, þvo þvott og gera og græja.


Í stað þess að láta litlu verkefnin safnast upp skulum við safna þeim á Tolerance listann og strika þau út jafn óðum.


Hvað er það fysta sem þú ætlar að takast á við?

Have fun!!


__________________________________________________________________________________

Fylgið mér á instagram Lífsmark hugur og heilsa

Íris Huld - íþróttafræðingur og markþjálfi


156 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page