top of page
Search

“Her success is not my failure”

Er setning sem ég þarf reglulega að minna mig á.


Hér áður fyrr þegar ég var að stíga mín fyrstu spor sem þjálfari voru persónulegar auglýsingar fátíðar og viðskiptavinum fjölgaði eftir því sem orðsporið efldist. Núna tæpum 20 árum síðar er öldin önnur, vissulega hefur orðsporið vægi og eflaust meira en áður þar sem framboðið hefur aukist en það sem er nýtt í mínum augum eru samfélagsmiðlar og eru þeir komnir til að vera sama hvort mér líkar betur eða verr.

Staðan er sú að ef ég ætla að vera með í leiknum þarf ég að sætta mig við þessa breytingu, hrista af mér feimnina, vera virk og sýnileg. Þetta er bara partur af programmet.


En þrátt fyrir aldur og fyrri störf stend mig iðulega að því að detta í efasemdarhugsanir og samanburð og líta á aðra þjálfara og sér í lagi einstaklinga af sama kyni öfundaraugum.

Þær virðast bara allar vera “meðetta”!


Og hvað gerist þá? Hugsanir líkt og “af hverju get ég ekki gert þetta", “hún er svo dugleg” og “hvernig hefur hún tíma fyrir allt þetta” koma upp í kollinn og ég enda á að eyða dýrmætum tíma í samanburð og draga sjálfa mig niður í leiðinni.

Það má deila um þroskann á bak við þessar hugsanir en þetta er staðreynd engu að síður.


Ég er þó nokkuð viss um að þessi hugsanaháttur komi upp á bestu bæjum hvort sem við viljum viðurkenna það eða ekki og þá er ég ekki að meina samanburð á flottustu póstunum á Instagram heldur bara samanburð á almennri velgengni í lífinu.

Með þessum hugrenningum mínum er ég að minna sjálfa mig á og aðra að eini samanburðurinn sem á að eiga sér stað er eigin árangur frá degi til dags. Eins klisjukennt og það hljómar.


Ég tel mig afar lánsama að vera umvafin sterkum fyrirmyndum og duglegum konum, í fjölskyldunni, vinahópnum og síðast en ekki síst í vinnunni. Í stað þess að horfa til þeirra með öfund hef ég ákveðið að láta velgengni minna fyrirmynda veita mér kraft og hvatningu til þess að halda áfram. Og já þegar ég segi ákveðið þá er ég að meina að tileinka mér jákvæða hugsun til mín og þeirra sem í kringum mig eru. Það að einhver nái árangri á sínu sviði sýnir mér bara að það er hægt! Það er allt hægt ef viljinn er fyrir hendi. Ef þú veist hvert þú vilt fara og ert reiðubúinn í að leggja í þá vinnu sem til þarf. Hvort sem við horfum á árangur í vinnu, líkamlegu formi, námi eða öðru sem lífið hefur upp á að bjóða.


Gott er að minna sig á að við sjáum oft bara toppinn á ísjakanum, glansmyndina eins og ég vil kalla hana. Við sjáum ekki fjölda tíma á bak við vinnunna, hve margar svefnlausar nætur í aðdraganda útgáfu bókar. Fórnarkostnaðinn sem felst í löngum vinnudögum í uppbyggingu eigin reksturs og stundirnar þegar bugun er á næsta leiti.


Sama hvert markmið okkar er og sama af hvaða stærðargráðu, árangur fæst ekki ókeypis!

Í staðinn fyrir samanburð skulum við láta þær konur vita sem veita okkur innblástur. Styðja hvora aðra og efla og halda áfram að að gera okkar besta.

Það er bara til ein ég og ein þú og við erum allar “meðetta” – hver á okkar einstaka hátt.__________________________________________________________________________________


Í þjálfarahópí Prmal Iceland eru konur í meirihluta! Þær eru grjótharðar fyrirmyndir.

Kíkið á þær <3181 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page