top of page
Search
Writer's pictureÍris Huld

,,Engin veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur”


Að þessu sinni er áramótaheiti mitt borðleggjandi.


Árið 2021 verður ár verkjaleysis og vellíðunar á líkama og sál!

Á árinu sem er að líða ákvað bakið mitt að segja stopp, hingað og ekki lengra.. eða svo gott sem. Ég fór frá því að geta sinnt starfi mínu, æfingum og útivist af fullum krafti yfir í það að missa svefn sökum verkja eftir stystu göngutúra og það á jafnsléttu.


Glansmyndir á fjöllum, af mér með bros á vör sýna sanna gleði á þeim tíma sem myndin var tekin, en þær sýna ekki vonleysið, bugunina og svefnleysið sem í kjölfarið fylgdi enda er sú sýn hvorki algeng né aðlaðandi á samfélagsmiðlum.


,,Engin veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur”

Þegar líkamleg eða andleg heilsa gefur sig áttar maður sig fyrst á því hve ómetanlegt það er að vera við góða heilsu og þegar maður stendur frammi fyrir áskorun sem þessari er bara tvennt í boði, - að gráta í koddann og gefast upp

- eða rífa sig í gang og halda áfram.... bara á öðrum hraða en áætlað var.


Vissulega hafa komið upp stundir þar sem ég hef grátið og viljað gefast upp en þá leiði ég hugann að því hvernig lífið mun líta út þegar ég hef náð settu marki og ég segi þegar því ég ætla mér að komast þangað.


Ég sé sjálfa mig fyrir mér í líkamlega góðu standi eftir langa fjallgöngu og vel úthvílda eftir dag á skíðum með fjölskyldunni.

Ef þessi sýn hvetur mig ekki áfram á þeim dögum sem bugun er á næsta leyti þá veit ég ekki hvað. Ég hef bara einn líkama og ég ætla mér að gera góða hluti með hann á næstu áratugum.


En til þess að þetta verði allt að veruleika þá þarf ég að taka nokkur skref til baka og sinna grunnvinnunni. Þær æfingar eru vissulega langt frá þeim æfingum sem mig dreymir um að stunda en til þess að ég geti framkvæmt þær sem efstar eru á óskalistanum þá þarf ég að gyrða mig í brók og vinna þessa vinnu.


Mottoið mitt fyrir komandi ár er „Do what you have to do until you can do what you want to do – Oprah Winfrey“ Ég lít á þessi orð sem vísun til skrefanna sem ég ætla mér að stíga á komandi ári eða þar til að markmiði mínu er náð.


Ég hef tekið þá ákvörðun að líta á þetta bakslag sem tækifæri í stað hindrunar.

Tækifæri til þess að sýna sjálfri mér og öðrum að það er hægt að komast á betri stað með góðri markmðasetningu, daglegri ástundun og síðast en ekki síst jákvæðu hugarfari.

Ég er staðföst í því að snúa dæminu við og nýta komandi ár til þess að ná fullri heilsu á ný og halda áfram að aðstoða aðra sem þurfa á hvatningu að halda til að gera slíkt hið sama.


Ef það er eitthvað sem árið 2020 hefur kennt heimsbyggðinni allri er að góð heilsa er það dýrmætasta sem fyrir finnst.


Ég kveð árið sem er að líða reynslunni ríkari, örlítið meyr en með bjartsýnisblik í auga.

Tilbúin að hefja nýjan kafla af fullum krafti. Það er nefnilega alltaf rými til bætinga, sama hvar við erum stödd.

Settu þig í fyrsta sæti...

Það ætla ég að gera! <3


229 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page