Í dag líður mér vel!
Ég finn æ sjaldnar fyrir kvíða og óróleika.
Ég hvílist betur á þeim 8 tímum sem ég ver í bólinu. Ég sýni sonum mínum aukna þolinmæði og mun meiri hlýju. Ég er meira “á staðnum” þegar heim er komið og maðurinn minn segir að ég hlægi oftar upphátt sem lætur mig brosa enn breiðar.
Ég er ekki frá því að ég syngi hærra í bílnum og þeim morgnum fjölgar sem ég vakna með létt skítaglott á vör og spennt fyrir deginum.
En þetta hefur ekki alltaf verið svona.
Það var þó sama hvað ég tók mér fyrir hendur, mér tókst alltaf að vera á öðru hundraðinu. Lífið er vinna og allt það… Í tugi ára hef ég sett sjálfa mig í flokkinn “þessi stressaða týpa” og var nokkuð viss um að því yrði ekki breytt.
Þrátt fyrir að huga vel að heilsunni með reglulegri hreyfingu og hollri næringu fann ég fyrir því hvernig streitan og álagið náði yfirhöndinni og oftar en ekki á kostnað líkamlegrar og andlegrar heilsu minnar.
Í lok síðasta árs sagði ég upp þáverandi starfi mínu og sagði um leið skilið við háu hælana. Ástæðan var tvíþætt, annars vegar að elta vinnutengdan draum og hinsvegar að hægja á. Markmiðið var að segja skilið við þann mikla hraða sem starfinu fylgdi og þar með setja mína eigin heilsu í forgang. Practice what you preach!
En mér til mikillar undrunar breyttist lítið þegar leið á. Ég upplifði mig fasta í vítahring og var enn að glíma við sömu einkennin og áður sem rekja mátti til streitu:
- Svefnvandamál
- Vöðvaspennu
- Stuttan þráð og eirðarleysi
- Minnisleysi
- Áhugaleysi
- Aukinn hjartslátt
- Litla sem enga kynhvöt
Já, ég sagði það, litla sem enga kynhvöt sem er heldur leiðinlegur fylgikvilli þegar þú átt að vera upp á þitt besta og í hjónabandi með manni sem þú elskar. “something´s gotta give”
Þegar álag er mikið kemst ástandið í vana, streituþolið eykst og við áttum okkur oft ekki fyllilega á áhrifunum fyrr en við lendum á vegg eða eitthvað gefur sig. Streita er ekki kallaður hinn nútíma “silent killer” að ástæðulausu.
Eftir að ég áttaði mig á ástandinu setti ég mér það markmið að ná gleðinni á ný og síðast en ekki síst losna við þetta óvelkomna ljón úr svefnherberginu.
Á blaði virðist þetta einfalt, innst inni vitum við hvað eigum að gera til þess að láta okkur líða betur. En að framkvæma er oft annað mál!
Ég byrjaði smátt og smátt að taka til í lífi mínu, koma inn daglegum föstum venjum ss. öndunaræfingum, hugleiðslu og teygjum.
Dagleg hreyfing er partur af planinu en ólíkt gömlu mynstri þá felst nú hreyfingin í því að gera það sem líkaminn kallar á hverju sinni. Ef ég fer fram úr mér og hreyfingin hefur áhrif á líkamlega líðan eða svefngæði mín veit ég að ég er að gera meira ógagn með hreyfingunni og þ.a.l. að færa mig fjær bættri heilsu.
Öndun og svefn er sér pistill út af fyrir sig. En breytt öndun er það sem hefur haft mest áhrif á mig. Ég taldi mig lengi vera með skothelda svefnrútínu, komin í bólið og sofnuð fyrir 22:00 en að verja 8 tímum í rúminu hefur lítið að segja ef þú hvílist ekki vel.
Og hvað gerir maður ekki til þess að öðlast betri hvíld og fá samfelldan nætursvefn? Jú, ég fórnaði m.a. kaffinu og smellti teipi á munninn. WHAT?!
“Slakaðu á og andaðu með nefinu” er sagt við barn í frekjukasti af því það virkar. Neföndunin veitir slökun í kerfið en munnöndun ekki.
Frá því að ég man eftir mér hef ég sofið með opinn munn og hefur sá öndunargír viðhaldið streituástandi líkamans í svefni og m.a. komið í veg fyrir að ég nái almennilegum svefngæðum. Tilraunin hefur skilað sínu og ég vakna æ oftar úthvíld og klár í slaginn.
Vissulega hafa aðrir þættir áhrif s.s. skjánotkun, æfingaform og álag, hvað ég læt ofan í mig og hvenær, en einhverstaðar verður maður að byrja.
Nú halda margir að ég sé endanlega búinn að missa vitið en ef þú hefur einhverntíman glímt við svefnvandamál þá veist þú hve miklu máli þetta skiptir.
Eina sem ég þurfti að gera var að fjárfesta í teipi í apotekinu og ýta kjánahrollinum til hliðar. Það sakar a.m.k. ekki að reyna.
Ef þú ert ein/n af þeim fjölmörgu sem ert að “drepast úr stressi” þá bið ég þig um að lesa þetta vel. Ábyrgðin er þín!
Það er í þínum höndum að snúa dæminu við og tileinka þér aðferðir til þess að ráða betur við það álag sem daglegu lífi fylgir, því álagið er og verður alltaf til staðar.
Eins og með allt annað þá er ekkert til sem heitir “one size fits all” og engin ein rétt aðferð í þessari baráttu. En ef þú ert að tengja við eitthvað hér að ofan þá hvet ég þig til þess að líta yfir daginn þinn og skoða þínar venjur, þær góðu og þær slæmu. Byrja smátt en taka skrefið fyrir alvöru og gefa þér þá góðu gjöf að færa þig í átt að streituminna lífi.
Eins og við segjum á mínu heimili, “Þeir sem vinna vinnuna fá útborgað” Það gildir í þessari deild líka og launaseðillinn er ekki af verri endanum.
Lífið er stutt! Er ekki málið að slaka aðeins meira og njóta þess?
__________________________________________________________________________________
Bókaðu 30 mínútna frían kynningartíma á Streitulausnum Lífsmarks með því að senda póst á netfangið iris@primal.is eða kynntu þér 4 vikna námskeiðið Sigrum streituna www.primal.is/streita
Næstu námskeið hefjsast 5. & 6. október.
Íris Huld Guðmundsdóttir
Íþróttafræðingur og markþjálfi.
Commentaires