top of page
Search

Ó nei.. allt nema kaffið!


Fyrir nokkrum árum hefði mig ekki órað fyrir því að ég yrði ein af þeim sem myndi hætta í kaffinu. Rútínan mín var iðulega 2x tvöfaldir espresso áður en ég stökk út á morgnana og svo bættust nokkrir bollar við þegar leið á daginn. Á þeim tíma gerði ég mér ekki grein fyrir þeim áhrifum sem þessir nokkru bollar höfðu á líðan mína.


...Enn og aftur „practice what you preach“


Fjöldi fólks leggur leið sína til okkar í Primal til þess að tileinka sér ný tæki og tól til þess að takast á við aukið álag og streitu.

Á námskeiðinu Sigrum streituna eru iðkendur undantekningalaust fróðleiksfúsir og klárir í slaginn að skapa sér nýjar venjur sem stuðla m.a. að meiri ró, bættum svefni og betri líðan í stoðkerfi.


Á námskeiðinu skapast iðulega umræður um fleiri þætti en öndun og æfingar sem áhrif hafa á andlega- og líkamlega líðan. Fólk er áhugasamt um þátt næringar á heilsuna og hvernig mataræði hefur áhrif á svefngæðin. EN þegar talið berst að kaffinu eða réttara sagt áhrif koffíns á svefninn þá eru alltaf nokkrir sem grípa andann á lofti!


„Ég er tilbúin/n í ansi margt en glætan að ég hætti í kaffinu“.


Trúið mér, ég er alveg að tengja þarna! Ég ætlaði mér aldrei að hætta í kaffinu. Minn uppáhalds drykkur var extraheitur, tvöfaldur hafra cappuchino – fylla með mjólk takk...

Ég var sjálf treg að taka út kaffið en hver hefur ekki áhuga á því að bæta svefngæði sín?!

Jú, a.m.k. við sem höfum reynsluna af því að hvílast illa og fara á fætur óúthvíld.

Ég stóð í þeirri meiningu að ég þyrfti kaffið til að keyra mig í gang á morgnana. En afhverju ætli það hafi verið? Drakk ég það bragðsins vegna, eða af gömlum vana. Eða drakk ég það því ég náði ekki að hvílast jafn vel og vildi? (humm... vítahringur?)


Gerðar hafa verið rannsóknir sem sýna ávinninginn af kaffidrykkju á heilsu okkar en hvernig væri að huga að þeim slæmu áhrifum sem þessi uppáhalds drykkur margra hefur?


Það tók mig langan tíma að sannfærast. En eftir að hafa tileinkað mér fasta svefnrútínu, öndunaræfingar, hugleiðslu og ýmislegt annað án þess að ná tilætluðum árangri með svefninn þá fannst mér ég verða að láta á það reyna.

Því eins og allir vita þá inniheldur kaffi koffín og koffín ýtir undir framleiðslu streituhormóna, hækkar púlsinn, blóðþrýstinginn og eykur magn adrenalíns í líkamanum. Sem er ekki vænlegt að hafa í kerfinu þegar markmiðið er að hvílast vel.


Ég byrjaði á því að draga úr kaffinu til þess að koma í veg fyrir fráhvarfseinkenni sem margir upplifa ef hætt er á einu bretti. Það var þó ekki fyrr en að ég tók út morgunkaffið að ég fann virkilegan mun.

Þá kom áskorunin, kaffið á morganna var heilagur þáttur í morgunrútínunni svo ég þrufti að skipta út þeirri venju fyrir aðra.


Í dag sakna ég þess ekki að fá mér kaffi og hef vanið mig á annan heimagerðan heitan bolla. Ég á það þó alveg til að fá mér einn, tvo gæðakaffibolla í góðra vina hópi og njóta þess í botn en er þá líka meðvituð um áhrifin.


Minn kryddaði morgundrykkur


- 2/3 bolli ósæt lífræn kókosmjólk

- 1/3 bolli sterkt te – ég kýs chamomile/piparmytu/kanil

- 1 tsk kókosolía

- ½ tsk turmeric

- ½ tsk kanill

- Dass af negul, svörtum pipar/chyenne

- 2 dropar af vanillustevíu


Allt sett í pott og hitað, sett nutribullet-inn, hellt í bolla og notið í ró. Stökum sinnum skipti ég út te-inu fyrir ceremonial cacao og leyfi mér að leika mér með blönduna.


Eins og sagt er, ekkert breytist ef engu er breytt og stundum þarf maður að prufa sig áfram og finna leiðir sem hentar.


Þú gætir verið ein/n af þeim sem fussar yfir þessu, segir að þetta sé bull og þínir 6 daglegu kaffibollar hafi engin áhrif á líðan þína. Hvernig væri þá að gefa því tækifæri og minnka eða hætta í kaffinu og finna muninn á eigin skinni?


Vissulega eru fleiri þættir sem hafa áhrif en hvað ef þetta færir þig nær gæða svefni og betri líðan er þá ekki vert að láta á það reyna?

Bara pæling?


Það er nefnilega munur á því að sofa og hvílast og hvíldin er dásamleg 😊

__________________________________________________________________________________

Fylgið mér á instagram Lífsmark hugur og heilsa

Íris Huld - íþróttafræðingur og markþjálfi


214 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page