Ég er pottþétt ekki ein um það að vera leitandi leiða til þess að einfalda og skipuleggja jólatíðina með það að markmiði að eiga rólyndis mánuð í faðmi minna nánustu og bestu. Eftir hasar síðustu mánaða og vikna veitir okkur ekki af því að draga úr hraðanum lágmarka óþarfa stress.
Mig langar að deila nokkrum punktum sem gætu veitt ykkur hugmyndir og hugarró fyrir komandi hátíðir.
Jólagjafirnar
· Gerum lista yfir jólagjafir – listinn auðveldar okkur yfirsýn.
· Gerum jólainnkaupin í tæka tíð. Það er lítil slökun í því að vera á síðasta snúning.
· Nýtum tæknina og pöntum á netinu - umferðarteppa við Bónus er ekki að auðvelda okkur slökunina.
·Tökum frá heilt kvöld í að skoða, versla og panta (ef þú ert ekki að vinna með heimagerðar gjafir þetta árið).
· Ekki ofhugsa gjafirnar – það er hugurinn sem gildir.
· Sníðum stakk eftir vexti. Gerum fyrirfram ákveðna kostnaðaráætlun og höldum okkur við hana – bætum ekki óþarfa fjárhagsáhyggjum ofan á allt.
Jólabakstur og matseldin
· Það er engin skömm í því að kaupa smákökudeigið – sparar oftar en ekki pening og óþarfa stress.
· Sleppum öllum samanburði. Í enda dagsins snýst baksturinn sjaldnast um sortirnar, það eru huggulegar samverustundir og fallegir bitar á bakka sem gilda.
· Gleymdu því að prófa marineringuna sem þú sást á Pinterest fyrir jólasteikina. Haltu þig við það sem þú kannt, þá eru minni líkur á því að eitthvað fari úrskeiðis.
Þrifin & heimilið
· Láttu alla á heimilinu taka þátt í tiltekt og þrifum – með því móti dreifir þú álagi og kennir öðrum handtökin.
· Setjum hreint á rúmin og Ajax á ofnana. Það þarf ekki að þrífa allt hátt og lágt, jólin koma samt.
· Gerðu lista yfir heimilisverk, þrif og skreytingar og deildu listanum niður á vikurnar í desember. Þá virkar verkefnið yfirstíganlegra.
Samverustundir og jólaboðin
· Það má segja „takk, en nei takk“ við boð í jólaboð, jólaball eða annað jóla jóla.
· Það má biðja um hjálp þó að þú haldir jólaboðið.
· Samverustundir með börnum þurfa ekki að kosta mikinn pening eða fyrirhöfn.
· Tillögur að samverustund með börnum sem krefjast lítls annars en viðveru eru td.:
- Göngutúr um hverfið að skoða falleg jólaljós
- Jólaljósmyndun í ljótum jólapeysum – börnin stjórna myndatökunni – allir eiga síma og flestir ljótan jólafatnað.
- Fara með flöskur í endurvinnsluna og gefa peninginn til góðgerðamála.
- Jóladansleikur heima í stofu.
Fullkomin jól eru ekki til en við getum komist ansi nálægt því með yfirvegun og gleði í hjarta.
Það verður alltaf einhver streita til staðar, ofelduð jólasteik eða ósend jólakort en skiptir það raunverulega máli?
Það sem máli skiptir er að verja tíma með fjölskyldunni og ástvinum. Hlæjum, borðum, spilum, hreyfum okkur og búum til minningar og hefðir sem endast alla ævi.
Njótið lífsins í desember <3
Það ætla ég mér að gera...
__________________________________________________________________________________
Íris Huld leiðir námskeiðið ,,Sigrum streituna” hjá Primal Iceland er námskeið sem hefur verið haldið við afar góðan orðstír síðustu misseri og þarna er að finna mörg gagnleg og góð verkfæri í baráttunni við streituna.
Námskeiðið er nú að finna á rafrænu formi.
Kynnið ykkur málið nánar á https://netnam.primal.is/
留言