top of page

Hver er Íris Huld?

Íþróttafræðingur & heilsumarkþjálfi

hjá Lífsmark hugur & heilsa og Primal Iceland

Ég er 41 árs tveggja barna móðir, eiginkona, kona í fullu starfi sem líkamsræktarþjálfari og markþjálfi. Ég er vinkona, systir, dóttir, æfingafélagi, ferðalangur, kokkur og bílstjóri. Eða hin hefbundna íslenska nútíma kona.

Alla ævi hef ég verið meðvituð um mikilvægi heilsunnar þó svo oft á tíðum hafi ég líkt og margir aðrir mátt huga betur að henni. En með árunum hefur þessi meðvitund aukist jafnt og þétt. Líklegast sökum þeirrar vitneskju að ég ein ber ábyrgð á minni líðan og vitandi það að með aukinni ábyrgð og fjölgun daglegra verkefna þarf ég sífellt að huga betur að eigin heilsu og vellíðan. Ég veit að ef ég ætla mér að geta sinnt öllum hlutverkum mínum með prýði þá þarf ég að setja mig í fyrsta sæti. 

Árið 2006 útskrifaðist ég með BSc/B.Ed gráðu í Íþróttafræði við Kennaraháskóla Íslands og í rúm 10 ár starfaði ég sem einka- og hóptímaþjálfari. Þar var að mestu einblínt á styrk og þol og mikilvægi þess að gera líkamsræktina hluta af daglegu lífi í von um góðan og oft skjótan árangur og heilsusamlegt líf. En með tímanum breyttist áhugi minn og færðist úr líkamsræktarsalnum yfir á „hina 23 tíma sólarhringsins“. 

Það að stunda líkamsrækt hefur marga kosti í för með sér en það þarf þó ekki að þýða að sá hinn sami sé í raun í sínu topp standi. Til þess að geta upplifað sig sem heilbrigða sál í hraustum líkama þarf maður að huga að mörgum öðrum, ekki síður mikivægum þáttum lífsins td. 

- að ná góðum nætursvefni

- stuðla að jafnvægi á milli vinnu og einkalífs

- bera kennsl og takast á við streituvalda

- huga að hollri og góðri næringu

- stuðla að jákvæðum samskiptum við sína nánustu 

Allir þessir þættir haldast í hendur og krefjast stöðugrar vinnu og einbeitingar.  

 

Árið 2015 stofnaði ég Lífsmark – Hugur & heilsa eftir að hafa lokið námi í heildrænni markþjálfun í Institute for Integrative nutrition. 

 

Árið 2018 lauk ég einnig Stjórnendamarkþjálfun í Opna Háskólanum í Reykjavík.

Í dag býð ég upp á Sigrum streituna einkatíma og námskeið,  markþjálfun, einka og hópþjálfun hjá Primal Iceland.

Lífsmark – Hugur & heilsa er staðsett í húsakynnum Primal Iceland í Faxafeni 12.

 

Gildi Primal Iceland eru „Healthy, Happy, Strong“ og tengi ég þau gildi við mín eigin og mína vinnu. Sem þjálfari nýti ég menntun mína, reynslu sem og áhuga minn á hamingjusamara lífi til að vinna með og styðja einstaklinga og hópa. 

109329460_2634910750158266_8447099878091
bottom of page